Enski boltinn

Endurkoman á Anfield var hápunktur ársins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luis Suarez, sóknarmaður Liverpool, á skrautlegt ár að baki en úrúgvæska stjarnan gerir upp árið í viðtali á heimasíðu félagsins.

Suarez hefur skorað sautján mörk á tímabilinu til þessa í Englandi þrátt fyrir að hafa misst af fimm leikjunum í haust þar sem hann var í banni. Hann fékk tíu leikja bann í vor fyrir að bíta Branislav Ivanovic, leikmann Chelsea.

Suarez spilaði með Liverpool í góðgerðarleik Steven Gerrard í sumar og sneri svo aftur á Anfield í deildarleik þegar að liðið mætti Crystal Palace í október. Suarez skoraði í leiknum.

„Hápunktur ársins var þegar ég kom aftur á Anfield. Það vita allir að sumarið var erfitt fyrir mig. En stuðningsmennirnir hjálpuðu mér þegar ég kom aftur og það var ótrúlegt að finna fyrir því. Það var mikilvægt fyrir sjálfstraustið, hjartað og fjölskylduna mína. Stuðningsmennirnir eru með mér í þessu og það var góð stund fyrir mig,“ sagði Suarez.

Suarez kemur víða við í viðtalinu og er til dæmis spurður um HM í Brasilíu næsta sumar. Úrúgvæ og England verða þar saman í riðli.

„Ég vonaði fyrirfram að við myndum ekki lenda saman í riðli. Það var svo ótrúlegt að sjá að England var dregið úr skálinni. Við Stevie [Gerrrard] skiptumst á skilaboðum og gátum hlegið að þessu.“

„En nú ætla ég að einbeita mér að Liverpool en við munum kannski ræða þetta frekar þegar tímabilinu lýkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×