Íslenski boltinn

Leikmenn bjóða hættunni heim með hrindingum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rúnar Kristinsson segir leikmenn KR aðeins einbeita sér að því að vinna leiki.
Rúnar Kristinsson segir leikmenn KR aðeins einbeita sér að því að vinna leiki. fréttablaðið/valli
Mikið hefur verið rætt um brottvísun Eyjamannsins Aarons Spear í bikarleik gegn KR á sunnudaginn. Þá ýtti Spear við Gunnari Þór Gunnarssyni, leikmanni KR, sem féll til jarðar með tilþrifum.

Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, var afar ósáttur með dýfu Gunnars Þórs en Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, sér hlutina í öðru ljósi.

„Þú getur metið það hvort leikmaðurinn leiki sér að því að detta eða hrindingin sé þess eðlis að menn geti ekki staðið í lappirnar,“ segir Rúnar. Hann segir leikmenn ekki eiga að bjóða upp á þetta.

„Þeir eru að bjóða upp á vandamál og þeir setja dómarann í þessa stöðu. Dómararnir þekkja reglurnar og valdið er þeirra,“ segir Rúnar. Hann minnir á að formaður dómaranefndar KSÍ hafi tekið af allan vafa um hvernig dómarar skuli bregðast við í atvikum sem þessum.

„Ég hélt að menn hefðu kannski hlustað á það og áttað sig á því að það mætti ekki ýta eða leggja hendur á aðra menn. Þú býður hættunni heim með því að láta svona.“

Hannes Þór Halldórsson ýtti við Ragnari Péturssyni seint í leiknum. Ragnar stóð hrindinguna af sér en ólíkt Spear fékk Hannes aðeins gult spjald. Hefði Rúnar verið svekktur við Gunnar Þór hefði hann einnig staðið af sér hrindinguna?

„Nei, ég hefði alls ekki verið svekktur yfir því. Það er ekki þannig að við séum að biðja okkar leikmenn um að detta ef þeir eru snertir, það kæmi aldrei til greina,“ segir Rúnar.

„Við förum inn á völlinn til þess að spila fótbolta og vinna fótboltaleiki. Það er það eina sem við hugsum um. Við leggjum ekki upp með neinn dónaskap eða leiðindi í okkar leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×