Innlent

Vonast eftir viðsnúningi í veðri

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Hlauparar undirbúa sig í Laugardal fyrir Reykjavíkurmaraþonið.
Hlauparar undirbúa sig í Laugardal fyrir Reykjavíkurmaraþonið. fréttablaðið/arnþór
Hið árlega Reykjavíkurmaraþon fer fram á laugardag og undirbúa keppendur sig nú fyrir átökin. Að sögn Önnu Lilju Sigurðardóttur, upplýsingafulltrúa maraþonsins, er veðurspáin ekkert allt of góð en hún er vongóð um að það snúist við.

„Langtímaspáin sýnir rok og rigningu en við höfum alltaf verið heppin með veður,“ segir Anna Lilja og bætir því við að annars megi „taka þetta á brosinu“.

Um níu þúsund manns hafa skráð sig í maraþonið en það er um 30 prósentum fleiri en á sama tíma í fyrra. Í gærmorgun var upphæð áheitasöfnunarinnar svo komin í 31 milljón. Það er um 16 milljónum meira en á sama tíma í fyrra.

Aðspurð hvort hún lumi á einhverjum heilræðum fyrir þátttakendur segir Anna Lilja að góður nætursvefn sé nauðsynlegur. „Það er mikil umferð og margar götur lokaðar. Því er gott að vera mættur snemma. Og ekki prófa nýja hlaupaskó í maraþoninu,“ segir Anna Lilja að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×