Innlent

"Íslensk hjólhýsahverfi eru slysagildrur"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Hörður Bjarnason hefur lengi flutt hjólhýsi til landsins og hefur mikla þekkingu á þeim. Þrír hafa látist af slysförum í hjólhýsum sínum í Þjórsárdal á þessu ári og Hörður vill opna á umræðu um slysavarnir og reglur í tengslum við hjólhýsanotkun. „Þegar það eru komin tvö þrjú dauðsföll gefur augaleið að það þarf að fara að gera eitthvað,“ segir Hörður.

Hann segir hjólhýsin úreldast og verða ónýt eins og önnur farartæki. „Það sem er að gerast núna í okkar þjóðfélagi er að hús sem kannski komu hérna fyrir 30 til 40 árum þau standa ennþá í notkun og það er orðið spurning hvort þetta sé nokkuð vit.,“ segir hann.

Hann segir reglur þverbrotnar, til dæmis um að færa skuli hjólhýsin til skoðunar reglulega. Hann vill meiri eftirfylgni og leggur til að sveitarfélög með hjólhýsahverfi láti til sín taka. Þá segir hann hættulegt að fólk byggi kofa, áfasta palla og annað í kringum hjólhýsin sem hamli því að hægt sé að færa þau. Þetta  sé auk þess eldsmatur. „Það er verið að leyfa alls konar byggingar í kringum þetta, kofarusl og timburrusl, sem er náttúrulega út í hött,“ segir Hörður.

Hann segir mikla hættu fylgja gasnotkun og því sé nauðsynlegt að leiða rafmagn í hjólhýsahverfin. „Svo á fólk náttúrulega ekkert að vera að sofa með gasið á yfir næturnar, það á bara að skrúfa fyrir kútinn. Svo er náttúrulega númer eitt, tvö og þrjú að koma sér upp góðum gasskynjara,“ segir hann.

Hörður er ekki mótfallinn hjólhýsahverfum og segir þau ódýra og sniðuga lausn til að eignast afdrep fyrir utan bæinn. „En það verður að fara að setja einhverjar reglur, það er alveg ljóst. Við látum ekki fólk deyja bara fyrir slóðaskap.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×