Enski boltinn

Wenger ánægður með baráttuna

Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, lofaði leikmenn sína fyrir að halda út manni færri gegn West Brom og vinna að lokum 2-1 sigur.

Tomas Rosicky skoraði bæði mörk Arsenal og kom liðinu í 2-0 forystu. Per Mertesacker gerði þá slæm mistök er hann fékk dæmda á sig vítaspyrnu. West Brom minnkaði muninn og Mertesacker fauk út af með rautt spjald.

„Þetta var erfiður leikur gegn góðu liði sem barðist allt til loka. Þetta voru þrjú mikilvæg stig fyrir okkur,“ sagði Wenger. „Við hættum aldrei að berjast og ég var ánægður með það.“

Arsenal komst upp í fjórða sæti deildarinnar með sigrinum en liðinu hefur gengið vel að undanförnu.

„Við höfum nú fengið 22 stig af 27 mögulegum í síðustu níu leikjum okkar og það er markmið okkar að halda áfram á þessu skriði allt til loka tímabilsins.“

„Ég get ekkert kvartað undan rauða spjaldinu. Þetta var rautt spjald og víti,“ bætti Wenger við en hann lofaði einnig frammistöðu Rosicky.

„Hann er mikilvægur leikmaður fyrir okkur og var frábær í dag. Hann hefur því miður verið að glíma við meiðsli í langan tíma en hann mun reynast okkur vel á lokaprettinum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×