Íslenski boltinn

Michael Præst samdi við Stjörnuna til ársins 2015

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Præst.
Michael Præst. Mynd/Valli
Michael Præst, hinn öflugi og reynslumikli miðjumaður Stjörnunnar, hefur gert nýjan tveggja ára samning við liðið en kappinn var að klára sitt fyrsta tímabil með Garðabæjarliðinu. Þetta kemur fram á heimasíðu Silfurskeiðarinnar, stuðningsmannasamtökum Stjörnuliðsins.

„Þetta eru frábær tíðindi fyrir félagið enda átti Præst stóran þátt í góðum árangri síðastliðið sumar og er öflugur einstaklingur innan sem utan vallar," segir í fréttinni á heimasíðu Silfurskeiðarinnar sem má sjá alla hér.

„Ég er mjög ánægður með að hafa ákveðið að vera áfram næstu tvö árin hjá Stjörnunni.Ég er sérstaklega ánægður með hversu fagmannlega félagið tók á mínum persónulegu málum. Ég varð faðir fyrir stuttu og félagið hefur náð að koma vel á móts við þær aðstæður sem við erum í og getum við því notið tímans á Íslandi," segir Michael Præst í fréttinni.

Það var vitað af áhuga annarra íslenskra liða á þessum flotta leikmanni en Stjörnumenn halda sínum manni.

„Præst er gríðarlega góður leikmaður, mikill leiðtogi og flottur karakter," sagði Rúnar Páll Sigmundsson, nýráðinn þjálfari Stjörnuliðsins í umræddri frétt.

Michael Præst er 27 ára gamall og skoraði 1 mark í 19 leikjum með Stjörnunni í Pepsi-deildinni í sumar. Hann lék áður með FC Fyn og Kolding FC en byrjaði ferilinn hjá Vejle Boldklub. Hann átti mikinn þátt í því að Stjarnan náði sínum besta árangri frá upphafi og komst í fyrsta sinn í Evrópukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×