Íslenski boltinn

Segir mikilvægan fótboltaleik hafa verið eyðilagðan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Gunnar kastar sér niður eins og hann hefði orðið fyrir strætisvagni eða verið skotinn í brjóstið. Brostu allir viðstaddir að þessum tilburðum – líka KR-ingar."

Þetta skrifar Páll Magnússon, útvarpsstjóri og stjórnarmaður hjá ÍBV, í aðsendum pistli á Fótbolti.net í dag. Útlistar Páll í pistlinum skoðun sína á brottvísun Aaron Spear í bikarleik ÍBV og KR á sunnudaginn.

Heilmikið hefur verið fjallað um rauða spjald Spear og fór Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, meðal annars mikinn í viðtali eftir leikinn. Þá sagði Kjartan Henry Finnbogason, hetja KR í leiknum, að um heimskulega hegðun hefði verið að ræða hjá Spear. Umdeildu atvikin úr leiknum og mörkin má sjá í spilaranum að ofan.

Páll er þeirrar skoðunar að Magnús Þórisson, dómari leiksins, hefði átt að spjalda báða leikmenn í umræddu atviku. Aaron fyrir að bera fyrir sig hendur og Gunnar Þór Gunnarsson, leikmann KR, „fyrir hlægilegan leikaraskap."

Páll er sammála ákvörðun Magnúsar dómara um rauða spjaldið á Ragnar Pétursson undir lok leiksins fyrir tæklingu á umræddum Gunnari Þór. Í kjölfar tæklingarinnar lagði Hannes Þór Halldórsson, markvörður KR, á sig langa leið og ýtti við Ragnari sem þegar hafði verið vikið af velli. Ragnar kippti sér lítið upp við hrindinguna og stóð í lappirnar.

„Bjuggust nú allir við að Magnús yrði samkvæmur sjálfum frá atvikinu fyrr í leiknum: rautt spjald fyrir að ýta! Nei, núna bara gult spjald," skrifar Páll og heldur áfram:

„Þessar ákvarðanir Magnúsar voru svo augljóslega rangar og samræmislausar að mörgum var til efs að um einföld mistök gæti verið að ræða. Hér hlyti að vera á ferðinni ásetningur um að fækka í öðru liðinu við fyrsta mögulega tækifæri en alls ekki í hinu við samskonar tækifæri. Hvað sem því líður eru þessi mistök af þeirri stærðargráðu að KSÍ hlýtur að grípa til einhverra ráðstafana. Það gengur einfaldlega ekki að mikilvægir fótboltaleikir séu eyðilagðir með þessum hætti."

Pistilinn í heild sinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×