Enski boltinn

Martin O'Neill rekinn frá Sunderland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin O' Neill.
Martin O' Neill. Mynd/NordicPhotos/Getty
Martin O'Neill stýrði Sunderland í síðasta sinn í 0-1 tapinu á móti Manchester UNited í ensku úrvalsdeildinni því félagið lét Norður-Írann taka pokann sinn eftir leikinn.

Sunderland er aðeins stigi frá fallsæti eftir að hafa leikið átta leiki í röð án þess að ná að vinna en liðið hefur aðeins náð í 3 stig af 24 mögulegum á þessum tíma.

Hinn 61 árs gamli Martin O'Neill tók við liði Sunderland fyrir aðeins sextán mánuðum eftir að Steve Bruce var rekinn. Liðið vann sjö af fyrstu tíu leikjunum undir hans stjórn og endaði í þrettánda sæti fyrir ári síðan.

Gengið hefur verið síðan verið á mikilli niðurleið á þessu tímabili. Sunderland var í þrettánda sæti um áramótin en er nú komið niður í það sextánda og í mikla fallhættu. Sunderland vann 16 af 55 deildarleikjum sínum undir stjórn O'Neill.

Sunderland mun ákveða það á næstu dögum hver tekur við stöðu Martin O'Neill en það er ljóst að sá hinn sami mun eiga erfitt verkefni fyrir höndum enda liðið án bæði fyrirliðans Lee Cattermole og aðalmarkaskorarans Steven Fletcher út tímabilið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×