Innlent

Tollverðirnir á batavegi

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Líðan tollvarðanna, sem fluttir voru á Landspítalann í Fossvogi í dag vegna gruns um eitrun af völdum amfetamínbasa, er stöðug og eru þeir á batavegi að sögn hjúkrunarfræðings á Landspítalanum.

Tollverðirnir gengust undir ítarlega hreinsun við komuna á Landspítalann til að fyrirbyggja að óæskileg efni fylgdu með þeim inn á spítalann. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kom fyrir sérstökum eiturefnagámi við Landspítlann í Fossvogi og var hann notaður til að hreinsa sjúkraflutningamenn sem fylgdu tollvörðunum til Reykjavíkur.

Eins og greint var frá á Vísi fyrr í dag báðu tollverðir erlendan flugfarþega um að fá að rannsaka innihald flösku sem sagt var innihalda rauðvín. Farþeginn brást ókvæða við og braut flöskuna. Grunur leikur á að um amfetamínbasa hafi verið að ræða.

Fimm manns, fjórir tollverðir og rannsóknarlögreglumaður, fóru á bráðadeild Landspítala í Fossvogi með eitrunareinkenni, uppköst, höfuðverk, svima og verki. Líðan þeirra er eftir atvikum og munu þeir gangast undir frekari rannsóknir. Vonir standa til að tollverðirnir verði jafnvel útskrifaðir síðar í kvöld.

Maðurinn sem braut flöskuna var handtekinn og er nú í haldi lögreglunnar á Suðurnesjum vegna rannsóknar málsins.

Frá slökkvistöðinni í Skógarhlíð.Mynd/Pjetur

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×