Fótbolti

Berglind Björg opnaði markareikninginn vestanhafs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eyjakonan Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði tvívegis fyrir háskólalið Florida State í sigurleik í gær. Liðið fer vel af stað í NCAA-deildinni.

Berglind Björg skoraði tvö mörk, hvort í sínum hálfleiknum, í 4-1 sigri á háskólaliði Auburn. Fyrra mark Eyjakonunnar kom með skalla á fjærstöng en hið síðara með snyrtilegri afgreiðslu eftir fyrirgjöf frá hægri.

Florida State vann einnig sigur í fyrsta leik tímabilsins á föstudaginn og hefur því unnið tvo sigra í tveimur leikjum. Þess utan var sigurinn í gær sá tuttugasti í röð á heimavelli en liðið hefur ekki tapað þar síðan árið 2011 sem er met hjá skólanum.

„Ég er nokkuð ánægð með spilamennsku liðsins. Sigurinn var góður fyrir okkur og það gengur vel. Þetta er frábær byrjun á tímabilinu," sagði Berglind Björg. Eyjakonan gat ekki leikið með Blikum um helgina sem urðu bikarmeistarar eftir sigur á Þór/KA í úrslitaleik.

Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum að ofan og þar má einnig sjá viðtal við Berglindi. Þá hrósar þjálfari liðsins framherjanum í hástert. Berglind var í herbúðum liðsins á síðustu leiktíð en fékk ekki leyfi til að spila með liðinu.

Dagný Brynjarsdóttir er komin á fulla ferð eftir að hafa brotið bátsbein í fæti með íslenska kvennalandsliðinu á EM í sumar. Dagný var í liði Florida í leikjunum um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×