Innlent

Bindandi samningur um Norðfjarðargöng í dag

Kristján Már Unnarsson skrifar
Vegur og brú að gangamunna Eskifjarðarmegin, samkvæmt tölvumynd verkfræðistofunnar Mannvits.
Vegur og brú að gangamunna Eskifjarðarmegin, samkvæmt tölvumynd verkfræðistofunnar Mannvits.
Skrifað verður undir bindandi verksamning um Norðfjarðargöng í Neskaupstað klukkan hálffjögur í dag. Vegamálastjóri segir að engin skilaboð hafi borist frá ríkisstjórn um að hætta við þetta 9,3 milljarða króna verk. Þetta verði því mikill gleðidagur fyrir austan og framkvæmdir fari strax í gang.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri skrifar undir verksamninginn við fulltrúa verktakanna sem buðu lægst,  tékkneska félagsins Metrostav og íslenska félagsins Suðurverks. Athöfnin verður í félagsheimilinu Egilsbúð og opin almenningi og býður sveitarfélagið Fjarðabyggð viðstöddum upp á kaffiveitingar á eftir. Húsið verður opnað kl 15 en að undirritun lokinni, kl. 15.30, verða flutt ávörp.

Þar sem fyrri ríkisstjórn hafði tengt fjármögnun Norðfjarðarganga við innheimtu sérstaks veiðigjalds á útgerðina hafa spurningar vaknað um hvort göngin myndu lenda í niðurskurði hjá nýrri ríkisstjórn með lækkun veiðigjaldsins eða vegna boðaðra aðgerða um sparnað í ríkisútgjöldum.

Svo virðist ekki vera því vegamálastjóri hafði nú laust fyrir hádegi ekki fengið nein fyrirmæli um að hætta við undirskriftina. Þetta verður því gleðidagur, segir Hreinn Haraldsson, og bætir við að úr þessu verði ekki aftur snúið því þetta sé bindandi verksamningur.



Snjómokstur við Oddsskarðsgöng.Mynd/Gunnar V. Andrésson.
Hann segir verktakana þegar byrjaða að undirbúa sig með því að flytja tæki á svæðið og þeir hlakki til að takast á við verkið. Þetta er langstærsta verk á vegaáætlun frá hruni, upp á 9,3 milljarða króna. Vegamálastjóri segir verkið taka fjögur ár og að stefnt sé að því að göngin verði opnuð umferð haustið 2017.

Norðfjarðargöngin verða sjö og hálfur kílómetri að lengd. Þau leysa af Oddsskarðsgöngin sem eru einbreið og liggja í 630 metra hæð yfir sjávarmáli. Vegurinn að þeim beggja vegna þykir háskalegur, sérstaklega að vetrarlagi. 


Tengdar fréttir

Kyngja því ekki ef göngin verða skorin niður í haust

Tékkneski verktakinn Metrostav ásamt Suðurverki áttu lægsta boð í Norðfjarðargöng, 9,3 milljarða króna. Þetta er stærsta verk sem Vegagerðin ræðst í eftir hrun og vonast vegamálastjóri til að hægt verði að komast í gegn fyrir lok árs 2016. Gömlu Oddsskarðsgöngin þykja barn síns tíma, eru einbreið, liggja í 630 metra hæð yfir sjávarmáli og vegurinn að þeim beggja vegna þykir háskalegur, sérstaklega að vetrarlagi. Nýjum Norðfjarðargöngum, milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar, er ætlað að koma í staðinn en þau verða sjö og hálfur kílómetri að lengd. Þetta er langstærsta verk á vegaáætlun frá hruni og því ríkti eftirvænting í höfuðstöðvum Vegagerðarinnar þegar tilboð voru opnuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×