Innlent

Kærir flugdólg og vill milljónir í bætur

Kristján Hjálmarsson skrifar
Vél Icelandair var á leið til Seattle í Bandaríkjunum.
Vél Icelandair var á leið til Seattle í Bandaríkjunum.
Icelandair hefur lagt fram kæru gegn manni sem var handtekinn eftir að hann sýndi af sér ógnandi framkomu um borð í flugvél félagsins í lok júlí. Vélin var á leið til Seattle í Bandaríkjunum en var snúið við eftir um klukkustundar flug.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, staðfesti í samtali við Vísi að félagið hefði lagt fram kæru gegn manninum fyrir nokkrum dögum. Lögreglan á Suðurnesjum mun síðan ákveða hvort ákæra verður gefin út.

Icelandair fer fram á skaðabætur vegna málsins. Guðjón vildi ekki segja hversu háa upphæð félagið fer fram á en sú upphæð hleypur þó á milljónum.

Flugvélinni hafði sem áður segir verið á flugi í tæpa klukkustund þegar maðurinn hóf dólgslætin. Vélinni var snúið við og var maðurinn handtekinn við komuna til Keflavíkur. Samkvæmt reglum flugfélagsins þurfti meðal annars að skipta um áhöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×