Innlent

Pókerstarfsemi grasserar á Íslandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Anton
Pókerklúbbar eru starfræktir hér á landi, en samkvæmt lögum er óheimilt fyrir þriðja aðila að hagnast á fjárhættuspili. Í kvöld heldur til dæmis Pókerklúbburinn 53, pókermót á veitingastaðnum Gullöldinni þar sem kostar 10 þúsund krónur að vera með. Í vinning eru 500 þúsund krónur.

Samkvæmt lögum er ólöglegt fyrir þriðja aðila að hagnast á fjárhættuspili hér á landi. Þrátt fyrir lagaumgjörðina eru þó nokkrir pókerklúbbar starfræktir hér á landi og hægt að finna fjölda þeirra á Facebook.

Lögreglan hefur nokkrum sinnum stöðvað fjárhættuspil hér á landi og eru dæmi um slíkar aðgerðir lögreglu að finna hér, hér og hér. Pókerspilun nýtur þó áfram mikilla vinsælda.

Hér fylgja þær greinar almennra hegningarlaga sem fjalla um fjárhættuspil:

 

183. gr. Sá, sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, ef miklar sakir eru.

Ákveða skal með dómi, hvort vinningi af fjárhættuspili eða veðmáli skuli skilað aftur eða hvort hann skuli gerður upptækur.

184. gr. Hver, sem aflar sér tekna beint eða óbeint með því að láta fjárhættuspil eða veðmál fara fram í húsnæði, er hann hefur umráð yfir, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×