Innlent

Átta manns handteknir þegar lögreglan réðst inn í spilavíti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Grunur leikur á að ólögleg spilastarfsemi hafi farið fram á staðnum.
Grunur leikur á að ólögleg spilastarfsemi hafi farið fram á staðnum.
Átta manns, hluti af þeim Íslendingar, voru handteknir í spilavíti í Skeifunni í gærkvöld. Fólkið er enn í haldi, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort krafist verður gæsluvarðhalds.

Hluti af hópnum er grunaður um að reka spilavíti en hinn hlutinn að hafa starfað hjá spilavítinu, samkvæmt upplýsingum frá Friðriki Smára Björgvinssyni, yfirlögregluþjóni. Hann telur að um 20 manns hafi verið inni á staðnum þegar honum var lokað. Friðrik Smári segist ekki geta sagt hversu lengi rannsókn málsins hafi staðið yfir. „Það er einhver undirbúningur búinn að vera," segir hann.

Rannsókn lögreglu miðast meðal annars að því að upplýsa um það hvers konar spilamennska fór þarna fram, en meðal annars voru haldlögð spilaborð og fleira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×