Enski boltinn

Suarez skrifaði undir nýjan samning við Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez.
Luis Suarez. Mynd/NordicPhotos/Getty
Luis Suarez, framherji Liverpool og markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar, verður áfram í herbúðum félagsins því hann skrifaði í dag undir nýjan langtímasamning. Þetta kemur fram á heimasíðu Liverpool.

Suarez er 26 ára gamall og kom til Liverpool frá Ajax í ársbyrjun 2011. Það hefur gengið á ýmsu á tíma hans á Anfield en eftir að hann kom til baka úr tíu leikja banni fyrir að bíta Branislav Ivanović hefur hann óumdeilanlega verið besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar.

Luis Suarez hefur skorað 17 mörk og lagt upp önnur 8 í 11 leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Suarez vildi losna frá Liverpool í sumar en snéri vörn í sókn og vann hug og hjörtu stuðningsmanna félagsins á nýjan leik með frábærri frammistöðu í framlínu Liverpool-liðsins sem er eins og er í öðru sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×