Enski boltinn

Mourinho vill tólf ár í viðbót hjá Chelsa og svo landslið á HM

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Nordicphotos/Getty
Jose Mourinho hefur sett sér hið háleita markmið að vera í brúnni hjá Chelsea næstu tólf árin. Guardian greinir frá þessu.

Portúgalinn fer með strákana sína í Chelsea á Emirates í kvöld þar sem liðið mætir Arsenal. Mourinho hefur haft betur í leikjum sinna liða gegn Arsene Wenger í síðustu níu leikjum.

Mourinho skrifaði undir fjögurra ára samning við Chelsea í sumar. Hann segist vonast til þess að eftir fjögur ár munu bæði félagið og hann sjálfur komast að réttri niðurstöðu.

„Ég væri til í að vera hérna jafnvel í tólf ár. Ég verð 51 árs í næsta mánuði. Ég væri til í tólf ár og svo tvö ár til að fara með landslið á HM í knattspyrnu. Portúgal væri fyrsti kostur og England númer tvö.“

Mourinho segir mikilvægt að félögin temji sér stöðugleika og gefi stjórum sínum aukinn tíma til að athafna sig. Vísar hann til David Moyes hjá Manchester United sem hann telur að allir séu samþykkir að muni fá nægan tíma. Það sé frábært.

Leikur Arsenal og Chelsea hefst klukkan 20 í kvöld. Hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og í textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×