Enski boltinn

Fyrsta skallamark Walcott

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Theo Walcott var hetja Arsenal sem sneri við blaðinu á Boylen Ground í heimsókn sinni til West Ham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um helgina.

Arsenal lenti marki undir í síðari hálfleik þegar Carlton Cole nýtti sér mistök Wojciech Szczezny í markinu. Arsenal slapp með skrekkinn skömmu síðar þegar Cole setti boltann framhjá úr dauðafæri.

Gestirnir þurftu aðeins fjórar mínútur til þess að snúa leiknum sér í vil. Fyrst skoraði Walcott með skoti sem fór á milli fóta Adrian í markinu. Þremur mínútum síðar skoraði Walcott aftur, nú með skalla eftir sendingu varamannsins Lukas Podolski. Sá þýski innsiglaði sigur gestanna með þrumuskoti tíu mínútum síðar.

Walcott upplýsti í viðtali við BBC eftir leikinn að hann hefði aldrei áður skorað með skalla.

„Pabbi verður sérstaklega ánægður með að ég skoraði með skalla. Hann er mikið fyrir skallamörk,“ sagði Walcott. Hann ítrekaði að hann ætti ekki bara við skallamarkaleysi í ensku úrvalsdeildinni heldur í öllum keppnisleikjum sínum.

Mörkin hjá Walcott ásamt hinum úr leiknum má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×