Enski boltinn

Stjóri Arons Einars rekinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
MacKay kemur skilaboðum til Arons Einars og Gary Medel.
MacKay kemur skilaboðum til Arons Einars og Gary Medel. Nordicphotos/Getty
Malky Mackay hefur verið rekinn sem knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Cardiff. Honum var tilkynnt ákvörðun stjórnarinnar á fundi í dag. BBC greinir frá.

Í tilkynningu á heimasíðu félagsins kemur fram að leitin að nýjum stjóra standi yfir. Mackay hafði stýrt liðinu í tvö og hálft ár, komið því í úrslit deildabikarsins og upp í ensku úrvalsdeildina. Cardiff hafði verið utan efstu deildar í 52 ár.

Cardiff tapaði 3-0 gegn Southampton á heimavelli í gær og var frammistaðan fyrir neðan allar hellur. Staða Mackay hjá velska liðinu hefur verið til umræðu enda löngu ljóst að hann var ekki í uppáhaldi hjá eigandanum, Vincent Tan.

Tan sendi Mackay tölvupóst þann 16. desember þar sem hann gaf honum þann kost að segja upp störfum. Tan hafði gagnrýnt Mackay fyrir eyðslusemi í félagaskiptaglugganum í sumar og tilkynnt að engir fjármunir yrðu til taks í janúarglugganum.

Skotinn 41 árs gamli neitaði að segja upp störfum og stýrði liðinu í tapleikjunum gegn Liverpool og Southampton í jólatörninni.

Aron Einar Gunnarsson leikur með Cardiff.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×