Enski boltinn

Welbeck hetja United í fjórða deildarsigrinum í röð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Welbeck fagnar marki sínu í dag.
Welbeck fagnar marki sínu í dag. Nordicphotos/Getty
Danny Welbeck kom Englandsmeisturum Manchester United til bjargar í heimsókn til Norwich á Carrow Road í dag.

United var án framherjanna Robin van Persie og Wayne Rooney í leiknum í dag. Van Persie hefur átt erfitt uppdráttar vegna meiðsla og Rooney glímir við lítils háttar meiðsli og var hvíldur.

Útlitið var dökkt fyrir þá rauðu og svörtu í fyrri hálfleik. Norwich sótti meira og fékk færi sem liðið hefði átt að nýta. Staðan markalaus í hálfleik.

Liðsmenn United mættu mun betur stemmdir til leiks í síðari hálfleikinn. Ryan Giggs fékk sér sæti á bekknum og Danny Welbeck kom inn á í hans stað.

Enski landsliðsframherjinn nýtti sér klaufagang í vörn Norwich á 57. mínútu og renndi boltanum í netið. Lítið var um færi það sem eftir lifði leiks svo United steig upp í rútu að leik loknum með þrjú stig í farteskinu.

United hefur nú unnið fimm leiki í röð í öllum keppnum. Liðið hefur 34 stig og fer í 6. sæti deildarinnar í bil. Norwich er í 14. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×