Innlent

Stálu skartgripum að verðmæti á fjórðu milljón

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Lýst var eftir parinu í gær og mynd birt af manninum.
Lýst var eftir parinu í gær og mynd birt af manninum.
Erlenda parið sem var handtekið í Leifsstöð í gærkvöldi vegna gruns um þjófnað fór úr landi að loknum yfirheyrslum.

Parið, 33 ára karlmaður og 18 ára kona, var grunað um að hafa stolið skartgripum úr verslun í miðborg Reykjavíkur í gær, en maðurinn og konan komu til landsins síðastliðinn mánudag. Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli hafði þá afskipti af þeim, en ýmislegt þótti gefa til kynna að  parið væri hingað komið til að hefja brotastarfsemi og gerðu tollverðir því lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu viðvart.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af þeim sama dag, og lék grunur á að þau hefðu stolið fatnaði og matvælum. Ekki tókst að færa sönnur á þjófnaðinn en þeim gert að fara af landi brott innan tveggja sólarhringa. Þau hafa engin tengsl við landið og óvíst um framfærslu þeirra hér á landi.

Árvekni tollvarðar kom upp um parið

Í kjölfar þjófnaðanna á skartgripunum, hvers verðmæti er á fjórðu milljón, var umfangsmikil leit gerð að þeim auk þess sem lýst var eftir þeim í fjölmiðlum. Þau voru svo handtekin af lögreglunni á Suðurnesjum í gærkvöldi, þá komin í Leifsstöð og á leið úr landi.

Tollvörður sem hafði verið á mánudagsvaktinni, þegar höfð voru afskipti af parinu, þekkti það aftur þegar það birtist í flugstöðinni í gærkvöld. Hafði hann þegar samband við lögregluna á Suðurnesjum. Þýfið fannst á þeim við handtöku.

Þau voru yfirheyrð í dag af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og telst málið upplýst. Þau fóru af landi brott að yfirheyrslum loknum. Komi þau að nýju verður mál þeirra tekið upp aftur.




Tengdar fréttir

Handtekin í Leifsstöð

Erlenda parið, sem lögreglan lýsti eftir í gær vegna rannsóknar á þjófnaðarmáli, var handtekið í Leifsstöð í gærkvöldi, á leið úr landi.

Lögreglan leitar að karlmanni og ungri konu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar að Alin Mijloc, 33 ára gömlum karlmanni, í tengslum við mál sem er til rannsóknar hjá embættinu. Af sama tilefni leitar lögreglan að Ileönu Bibilicu 18 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×