Enski boltinn

Aukaæfingarnar skiluðu árangri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Flanagan fagnar marki sínu um helgina.
Flanagan fagnar marki sínu um helgina. Nordic Photos / Getty Images
Jon Flanagan, tvítugur bakvörður hjá Liverpool, skoraði glæsilegt mark gegn Tottenham í 5-0 sigri sinna manna á White Hart Lane um helgina.

Flanagan spilaði vel í leiknum en hann hefur leyst Glen Johnson af hólmi eftir að sá síðarnefndi fékk sýkingu í kjálka í byrjun nóvember.

Markið skoraði hann með frábæru skoti sem fór í slána og inn. Flanagan segist hafa æft skotin sérstaklega eftir æfingar.

„Við erum alltaf nokkrir eftir æfingar sem erum áfram og tökum skotæfingar,“ sagði Flanagan við enska fjölmiðla. „Ég tel að þetta sé eitthvað sem ég get bætt í mínum leik.“

„En fyrst og fremst mun ég einbeita mér að varnarleiknum enda er hann mitt aðalstarf. En bakverðir í dag þurfa að geta sótt fram og ógnað á síðasta þriðjungi vallarins.“

„Það var gaman að horfa á markið í sjónvarpi,“ viðurkenndi hann. „Ég tók það upp og er enn í skýjunum. Þetta var sannkallaður draumur sem rættist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×