Enski boltinn

Frábær kaup hjá Kenny Dalglish

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordan Henderson.
Jordan Henderson. Mynd/NordicPhotos/Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, hrósar forvera sínum í starfi, Kenny Dalglish, fyrir kaup sína á miðjumanninum Jordan Henderson frá Sunderland.

Jordan Henderson átti mjög góðan leik um síðustu helgi þegar Liverpool vann 5-0 stórsigur á Tottenham og skoraði bæði og lagði upp mark í leiknum.

Liverpool keypti þennan 23 ára landsliðsmiðjumann frá Sunderland fyrir 20 milljónir punda í júní 2011.

„Þetta voru frábær kaup hjá Kenny. Jordan ákvað ekki upphæðina og hefur mátt þola þó nokkra gagnrýni vegna hennar. Hann er hinsvegar bara 23 ára, er 182 sm á hæð, getur hlaupið allan daginn og er auk þess með fína tækni," sagði Brendan Rodgers í viðtali við Liverpool Echo.

Jordan Henderson hefur verið í byrjunarliðinu í öllum sextán deildarleikjum Liverpool á tímabilinu og hefur aðeins verið skipt einu sinni útaf. Hann spilaði sem sóknartengiliður á móti Spurs en hefur verið að spila allstaðar á miðjunni.

Henderson skoraði sitt fyrsta deildarmark á tímabilinu í leiknum á White Hart Lane en hann hefur lagt upp mark fyrir Luis Suárez í síðustu tveimur leikjum.

Mynd/NordicPhotos/Getty
Mynd/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×