Enski boltinn

Manchester City og Manchester United sluppu við hvort annað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrice Evra skoraði með hægri í kvöld.
Patrice Evra skoraði með hægri í kvöld. Mynd/AP
West Ham og Manchester United tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum enska deildabikarsins og strax eftir leiki kvöldsins var dregið í undanúrslit keppninnar.

Það verður ekki Manchester-slagur í undanúrslitunum því Manchester City og Manchester United sluppu við hvort annað í drættinum.

Sunderland mætir Manchester United í fyrri viðureigninni og Manchester City spilar við West Ham í þeirri seinni. Leikið er heima og að heiman og fara leikirnir fram í janúarmánuði.

Það búast því flestir við Manchester-slag í úrslitaleiknum sem fer fram á Wembley-leikvanginum 2. mars næstkomandi.

Tottenham og Stoke City duttu út úr enska deildabikarnum í kvöld. West Ham skoraði tvö mörk á síðustu tíu mínútunum og vann 2-1 útisigur á Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Tottenham en Manchester United vann á sama tíma 2-0 útisigur á Stoke City.

Manchester City og Sunderland unnu sína leiki í átta liða úrslitunum í gær, City sló þá út Leicester City en Sunderland vann endurkomusigur í framlengdum leik á móti Chelsea.

Swansea City vann enska deildabikarinn í fyrra en ekkert lið sem var í undanúrslitunum þá tókst að endurtaka leikinn nú. Í fyrra voru Aston Villa, Bradford City, Swansea City og Chelsea í undanúrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×