Enski boltinn

Fyrsti sigur Fulham síðan október

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Fulham var mikið betri aðilinn í leiknum.
Fulham var mikið betri aðilinn í leiknum. Mynd/NordicPhotos/Getty
Fulham gerði sér lítið fyrir og skellti Aston Villa 2-0 á heimavelli sínum í Lundúnum í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Var það fyrsti sigur Fulham síðan 21. október og kom hann í öðrum leiknum eftir að knattspyrnustjórinn Martin Jol var látinn fara frá félaginu.

Steve Sidwell kom Fulham yfir á 21. mínútu og níu mínútum síðar bætti Dimitar Berbatov öðru marki við úr vítaspyrnu og þar við sat.

Sigur Fulham var fyllilega verðskuldaður og var lið Aston Villa arfaslakt í leiknum og virkaði hreinlega illa fyrirkallað.

Ekkert skal þó tekið af liðið Fulham sem vann loks sigur eftir sex tapleiki í röð í deildinni og einn í deildarbikarnum að auki. Fulham fór með sigrinum upp í 18. sæti deildarinnar en liðið er nú með 13 stig eftir 15 leiki.

Aston Villa er í 10. sæti með 19 stig en þarf að leika mun betur ætli liðið ekki að sogast niður í fallbaráttuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×