Innlent

Veðrið verst með suðurströndinni

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Á höfuðborgarsvæðinu má búast við austan 10-18 m/s og rigningu með köflum.
Á höfuðborgarsvæðinu má búast við austan 10-18 m/s og rigningu með köflum. mynd/pjetur
Búist er við austan stormi á Suðurlandi, Suðausturlandi og Miðhálendinu fram eftir degi samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Þá má búast við vindhviðum, allt að 40 m/s við fjöll, sunnan- og suðaustanlands í dag.

27 m/s eru á Stórhöfða og 26 m/s á Fagurhólsmýri og að sögn Veðurstofu verður veðrið verst með suðurströndinni.

Búist er við rigningu og slyddu sunnan til og von er á snjókomu norðanlands seinnipartinn. Þá er búist við stormi á Vestfjörðum og Austfjörðum en að lægji sunnanlands síðar í dag.

Þá er sandstormur á Skeiðarársandi og varar Vegagerðin ökumenn við honum og sömuleiðis við óveðri undir Eyjafjöllum og á Reynisfjalli, þar sem er þæfingsferð er á vegum. Skólaakstur hefur verið felldur niður á svæðinu.

Það er skafrenningur á Hellisheiði, í Þrengslum og á Sandskeiði og vetrarfæri er í öðrum landshlultum, en víðast fært. Fyrsta ferð Herjólfs fellur niður vegna mikillar ölduhæðar í Landeyjahöfn. Ölduspá fyrir Landeyjahöfn er óhagstæð í allan dag, en fært er til Þorlákshafnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×