Innlent

Hjálpa til við heimilisverkin í öllum húsum bæjarins

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
„Hér geisla allir af vináttu,“ segir Stefán Már Gunnlaugsson, sóknarprestur Hofsprestakalls, en hápunkti Vinavikunnar á Vopnafirði verður náð í dag með kærleiksmaraþoni og flugeldasýningu. Kærleiksmaraþonið er haldið í sjöunda sinn í ár en þá ganga unglingar staðarins í hús og bjóða fram aðstoð sína við heimilisverkin. „Við förum í öll hús á Vopnafirði,“ útskýrir Stefán Már og að hans sögn taka íbúar vel í uppátækið. Enda kannski ekki að undra þar sem að heimilisverkin verða seint talin skemmtilegasta iðjan sem völ er á. Kærleiksmaraþonið er ekki eina afþreying dagsins heldur verður að auki haldið Vinabingó og Þorgrímur Þráinsson fjallar um það hvernig gera skal gott samfélag betra.

Í Vinavikunni hafa verið fjölmargir viðburðir, allir tengdir vináttu og kærleika. „Þetta hefur gengið framar björtustu vonum. Metmæting á alla viðburði,“ segir Stefán. Síðastliðinn föstudag var til að mynda haldinn knúsdagur. Á knúsdeginum buðu unglingar Vopnafjarðar fram aðstoð sína í verslunarinnkaupum fyrirtækja, stofnana og verslana. Að auki buðu þau öllum knús. Daginn áður þrömmuðu Vopnfirðingar í Vinaskrúðgöngu og fengu sér þar á eftir gómsætar veitingar í Vinakökuboði.

Eru semsagt allir í kærleiksríku skapi á Vopnafirði?

„Mjög svo,“ fullyrðir Stefán Már, sóknarprestur.

Fjölmennt var í skrúðgöngunni þar sem Vopnfirðingar fögnuðu vináttunni.Myndir/Stefán Már Gunnlaugsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×