Innlent

Kjarreldar í Ástralíu: "Fólk er hrætt"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Óttast er að kjarreldar í Nýju Suður- Wales í Ástralíu færist í aukana á næstu dögum en hundruð heimila hafa þegar brunnið til grunna. Fólk er óttaslegið, segir íslensk kona sem þar býr.

Yfirvöld á svæðinu hafa lýst yfir neyðarástandi en eldarnir komu upp fyrr í þessari viku og hafa þegar um fjörutíu þúsund hektarar af skógi vöxnu svæði orðið þeim að bráð.

Elín Björg Björnsdóttir býr í bænum Wollongong, sem er í um 70 kílómetra fjarlægð frá Sydney. „Veðurspáin lofar ekki góðu upp á eldhættu að gera. Það er mikill hiti á morgun og svo í vikunni á að bæta verulega í vind og það er eiginlega það versta sem er hægt að fá upp á eldana að gera,“ segir Elín.

Slökkvistarf hefur gengið illa enda mikið rok á svæðinu. Að minnsta kosti einn hefur látist og hundruð heimila hafa brunnið til grunna. Elín segir fara eftir vindátt hvar reykurinn er mestur og hún segir lyktina sem honum fylgir afar slæma.

Bláfjöll, sem eru í um 80 kílómetra fjarlægð frá heimili Elínar, hafa orðið einna verst úti. Hún segir fólk óttaslegið. „Þetta gerist svo hratt og það er til dæmis barnaskóli hér í nágrenninu þar sem börnin urðu innlygsa. Foreldrar gátu ekki náð í börnin sín og fólk varð hrætt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×