Innlent

Níu tilkynnt um framboð hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík

Heimir Már Pétursson skrifar
Níu einstaklingar hafa tilkynnt um framboð sitt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor. Meiri líkur eru á því en minni að Halldór Halldórsson bjóði sig fram í fyrsta sætið.

Þegar kosið verður til borgarstjórnar næsta vor verða tuttugu ár liðin frá því Sjálfstæðismenn höfðu hreinan meirihluta í bogarstjórn. Á föstudag rennur út frestur til að bjóða sig fram í prófkjöri  flokksins. Nú þegar liggur ljóst fyrir að Júlíus Vífill Ingvarsson núverandi oddviti flokksins og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sækjast eftir fyrsta sætinu og meiri líkur en minni eru á því að Halldór Halldórsson fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði geri það einnig.

Halldór er varbæjarfulltrúi á Ísafirði og eiginkona hans er bæjarfulltrúi. Þau hafa bæði fengið leyfi bæjarstjórnar til að flytja lögheimili sitt til Reykjavíkur og samkvæmt heimildum fréttastofu hefur hann orðið sér út um húsnæði í Reykjavík fyrir kosningamiðstöð og ráðið til sín kosningastjóra.

Í samtali við fréttastofu taldi hann meiri líkur en minni á því að hann bjóði sig fram í Reykjavík en sagði þó enn geta brugðið til beggja vona, en framboðsfrestur rennur út á föstudag.

„Eins og staðan er í dag hafa tíu tilkynnt um framboð sitt og af þeim eru fimm nýir frambjóðendur,“ segir Óttarr Guðlaugsson formaður Varðar fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík.

Eins og áður sagði hafa borgarfulltrúarnir Júlíus Vífill og Þorbjörg Helga tilkynnt um framboð sín. Þá hafa tveir núverandi varaborgarfulltrúar gert það og fastlega er búist við að borgarfulltrúarnir Kjartan Magnússon, Hildur Sverrisdóttir og Áslaug M Friðriksdóttir geri það einnig, þannig að framboðin verða að minnsta kosti tólf eða þrettán ef Halldór Halldórsson ákveður að láta slag standa.

Í dag hefur Besti flokkurinn sex borgarfulltrúa og Samfylkingin þrjá og saman mynda flokkarnir minnsta mögulega meirihluta í borginni. Sjálfstæðisflokkurinn er með fimm fulltrúa og Vinstri grænir einn.

En telur Óttarr að baráttan um forystusætið verði hörð?

„Ég held að baráttan verði málefnaleg. Ég held líka að þetta sé fólk með mikla og bjarta framtíðarsýn og metnaðarfullt fólk. Þannig að ég held að baráttan verði skemmtileg,“ segir Óttarr.

Flokkurinn leggur væntanlega allt í sölurnar til að sækja á í kosningunum næsta vor?

„Stefnan er alltaf tekin á hreinan meirihluta. Svo sjáum við bara hver úrslitin verða á kjördag og vinnum úr málunum eins og þau standa þá,“ segir Óttarr Guðlaugsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×