Innlent

Meirihluti ungs fólks íhugað að flytja til útlanda

Brjánn Jónasson skrifar
Meirihluti ungs fólks undir þrítugu hefur hugsað um að flytja til útlanda á síðustu mánuðum samkvæmt skoðanakönnun MMR. Alls sögðust 56 prósent fólks í aldurshópinum 18 til 29 ára hafa íhugað að flytja frá Íslandi.

Alls hafa 40 prósent landsmanna á öllum aldri íhugað að flytja til útlanda, og er hlutfallið svipað og í sambærilegri könnun MMR frá nóvember 2011. Meirihlutinn, 60 prósent landsmanna, hefur eftir sem áður ekki íhugað að flytja frá Íslandi.

Ungt fólk er líklegast til að hafa hugsað um að flytja til útlanda. Alls sagðist 49,3 prósent fólks á aldrinum 30 til 39 ára hafa hugsað um að flytja frá Íslandi, og 43 prósent fólks á aldrinum 40 til 49 ára.

Hlutfallið er lægra eftir því sem aldurinn hækkar. Um 33,2 prósent fólks á aldrinum 50 til 59 ára hefur hugsað um að flytja frá Íslandi, 18,6 prósent fólks á aldrinum 60 til 67 ára, og 5,9 prósent þeirra sem eru 68 ára og eldri.

Heldur fleiri íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa íhugað að flytja af landi brott, 43,6 prósent samanborið við 34,5 prósent íbúa landsbyggðarinnar.

Könnun MMR var gerð dagana 26. september til 1. október. Alls svöruðu 968 einstaklingar 18 ára og eldri könnuninni.

Nánari upplýsingar um könnunina má nálgast á vef MMR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×