Innlent

Saga fór húsavillt í leit að Sigmundi Davíð

Samúel Karl Ólason skrifar
Saga Garðarsdóttir fór húsavillt þegar hún ætlað að taka hús á Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðerra. Hún birti á Vísi í gær pistilinn Jæja Sigmundur Davíð en honum fylgdi myndband frá heimsókn Sögu til Sigmundar að Hrafnabjörgum 3 í Jökulsárhlíð.

„Það þarf augljóslega landsátak þar sem landsmenn eru hvattir til að merkja eyðibýlin sín betur. Þá kæmu svona vandamál síður upp,“ segir Saga og bætir við að hún sé ekki þekkt fyrir að vera ratvís.

Ástæða heimsóknarinnar var sú að Saga skrifaði annan pistil til Sigmundar fyrir nokkru, Kæri Sigmundur Davíð, þar sem hún bað hann um að verða pennavin sinn, en ekki barst Sögu svar frá Sigmundi.

Enginn kom þó til dyra þegar Saga bankaði og skildi hún því eftir miða handa Sigmundi. Miðinn var þó ekki skilinn eftir við rétt hús. Austurfrétt segir frá því í dag að Saga hafi farið húsavillt í leit sinni að Sigmundi.

„Núna bíð ég bara spennt eftir að Sigmundur sendi eftir mér bát og láti sigla mér upp að réttum dyrum þar sem hann tekur á móti mér með opin faðm og rúllutertu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×