Innlent

Halldór Halldórsson vill fyrsta sætið í Reykjavík

Höskuldur Kári Schram skrifar
Hallldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þrír sækjast nú eftir oddvitasætinu.

Frestur til að tilkynna framboð í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar rennur út á föstudag. Það stefnir í harðan slag um oddvitasætið en auk Halldórs sækjast þau Júlíus Vífill Ingvarsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir eftir fyrsta sæti. Hann Birna Kristjánsdóttir skipaði fyrsta sæti á lista flokksins í síðustu kosningum en hún hætti í borgarstjórn eftir að hún tók sæti á Alþingi.

„Það er ákveðin opnun varðandi leiðtogasætið. Leiðtoginn er hættur og farinn í landsmálin auk þess skoruðu sjálfstæðismenn í borginni á mig þannig að mér finnst þetta mjög áhugavert tækifæri,“ segir Halldór.

Halldór var bæjarstóri Ísafjarðarbæjar og oddviti sjálfstæðismanna í bæjarfélaginu í 12 ár.  Aðspurður hvort hann hafi nægilegt bakland í Reykjavík segist Halldór treysta því að málefnin ráði för. „Ég kem líka með nýjan hóp inn í þetta með mér og svo vonast ég til þess að minn málflutningur í kosningabaráttunni muni hafa áhrif á sjálfstæðismenn í borginni. Þetta er auðvitað í höndum flokksmanna,“ segir Halldór.

Prófkjörið fer fram 16. nóvember næstkomandi. Kjartan Magnússon sem einnig var orðaður við oddvitasætið tilkynnti í dag að hann muni sækjast eftir öðru sæti á lista flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×