Innlent

Lára Hanna dýrmætur fulltrúi almennings

Jakob Bjarnar skrifar
Píratar styðja Láru Hönnu heilshugar -- sinn fulltrúa í stjórn RÚV.
Píratar styðja Láru Hönnu heilshugar -- sinn fulltrúa í stjórn RÚV.
Píratar hafa sent frá sér tilkynningu vegna umfjöllunar um stöðu Láru Hönnu Einarsdóttur, varamanns í stjórn RÚV, og gagnrýni hennar á Gísla Martein Baldursson: Píratar styðja sinn fulltrúa heilshugar, þó menn velti því fyrir sér hvort við hæfi sé að stjórnarmaður ráðist á einstaka dagskrárliði.

„Ástæða þess að Lára Hanna Einarsdóttir varð, ásamt Pétri Gunnarssyni, fyrir valinu hjá Pírötum í stjórn RÚV var einmitt út af því að við getum treyst því að hún er ekki í neinu flokksliði, heldur er sjálfstæð kona sem þorir að vera óþolandi flugan í tjaldinu. Hvorki við þingmenn Pírata, né nokkrir aðrir stjórnmálamenn getum haft áhrif á Láru Hönnu og það gerir hana að dýrmætum fulltrúa almennings í stjórn RÚV,“ segir Píratar.

Ástæða þess að Píratar vilja koma þessu á framfæri er umfjöllun í fjölmiðlum og ummæli sem fallið hafa í þjóðfélagsumræðunni, um gagnrýni Láru Hönnu Einarsdóttur, varamanns í stjórn RÚV, á sunnudagsþátt Gísla Marteins Baldurssonar.

„Þingflokkur Pírata stendur heilshugar með tjáningar- og málfrelsi allra landsmanna, þar á meðal og ekki síst þeirra sem skipaðir hafa verið sem fulltrúar almennings í stjórnum og ráðum á vegum hins opinbera.“

Fjölmargir hafa orðið til að tjá sig um stöðu Láru Hönnu, þeirra á meðal Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor við Háskóla Íslands, sem segir eftirfarandi í Facebook-uppfærslu í gærkvöldi:

„Þessi kona er einhver furðufugl. Hún hefur gert myndbönd um marga. Ég botna ekki í, hvers vegna henni eru falin einhver trúnaðarstörf. En því miður gat ég ekki horft á þátt Gísla Marteins, þar sem ég var (og er) erlendis í fyrirlestraferð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×