Innlent

Flokkspólitísk heift Láru Hönnu

Jakob Bjarnar skrifar
Björn Bjarnason segir viðbrögð Skarphéðins Guðmundssonar dagskrárstjóra dapurleg.
Björn Bjarnason segir viðbrögð Skarphéðins Guðmundssonar dagskrárstjóra dapurleg. Anton Brink
Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra, segir að heift Láru Hönnu Einarsdóttur, bloggara og varaformanns í stjórn RÚV ohf, í garð Gísla Marteins Baldurssonar einkennist „að sjálfsögðu“ af flokkspólitík.

Björn ritar harðorðan pistil á vef Evrópuvaktarinnar í kjölfar fréttar Vísis af viðbrögðum Skarphéðins Guðmundssonar dagskrárstjóra innlendrar dagskrárgerðar RÚV ofh, við myndbandi Láru Hönnu; því sem hún setti inn á YouTube en þar er nýr sjónvarpsþáttur Gísla Marteins harðlega gagnrýndur og reyndar dreginn sundur og saman í háði. Birni líkar það rétt mátulega. „... tilgangurinn er einfaldlega að skemma sem mest fyrir Gísla Marteini af pólitískum ástæðum.“

En, þrátt fyrir þetta finnst Birni viðbrögð Skarphéðins, sem sagði að velta megi fyrir sér því hvað sé við hæfi af stjórnarmönnum að setja fram opinberlega um einstaka dagskrárliði, dapurleg. „Það er greinilega litið þannig á stjórnarmenn ríkisútvarpsins innan veggja þess að þeir séu hluti af hópnum í Efstaleiti en ekki fulltrúar almennings með sjálfstæða, gagnrýna rödd. Verði frumhlaup Láru Hönnu til að virkja stjórnarmenn ríkisútvarpsins í opinberum umræðum um dagskrá þess og efnistök ber að taka því fagnandi þótt efnistökum hennar sé mótmælt sem óvinsamlegum og hlutdrægum,“ skrifar Björn Bjarnason.

Björn Bjarnason telur heift Láru Hönnu í garð Gísla Marteins af flokkspólitískum rótum sprottin.
Lára Hanna tekur pistil Björns til umfjöllunar á Facebooksíðu sinni og veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga: „Honum finnst frábært að varamaður í stjórn Ríkisútvarpsins tali opinberlega um dagskrá og efnistök miðilsins – en það má bara alls ekki gagnrýna hans menn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×