Fótbolti

„Alkmaar enn paradís bandarískra framherja“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aron fagnar marki í leik með AZ.
Aron fagnar marki í leik með AZ. Nordicphotos/Getty
Aron Jóhannsson hefur spilað 29 mínútur með bandaríska landsliðinu. Frammistaða hans gefur tilefni til meiri spiltíma.

Þetta skrifar blaðamaður bandaríska íþróttatímaritsins Sports Illustrated í tilefni af þrennu Arons í bikarleik með AZ Alkmaar í gærkvöldi. Aron hefur skorað níu mörk í tólf leikjum með AZ á tímabilinu.

Helsta samkeppni Arons í framlínu bandaríska landsliðsins er Jozy Altidore, Clint Dempsey og Eddie Johnson. Altidore skoraði 31 mark fyrir AZ á síðustu leiktíð sem er met hjá bandarískum leikmanni utan landsteinanna. Nú fylgir Aron árangri hans eftir og segir blaðamaður því greinilegt að Alkmaar sé paradís bandarískra framherja.

Altidore hefur hins vegar átt erfitt uppdráttar í upphafi leiktíðar með Sunderland í ensku úrvalsdeildinni. Dempsey er enn að koma sér fyrir hjá Seattle Sounders í MLS-deildinni og Johnson hefur skorað níu mörk á árinu 2013. Aron hefur skorað níu síðan í júlí.

„Aron ákvað loksins í ágúst að spila fyrir Bandaríkin í stað Íslands sem hann hafði spilað með í yngri landsliðum. Hann hefur aðeins spilað 29 mínútur fyrir Klinsmann. Frammistaða hans gefur tilefni til miklu fleiri mínútna,“ segir í niðurlagi greinarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×