Fótbolti

Verður pláss fyrir Eið Smára í byrjunarliðinu?

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eiður Smári á æfingu landsliðsins í gær.
Eiður Smári á æfingu landsliðsins í gær. Mynd/Pjetur
Eiður Smári Guðjohnsen hefur ekki enn komist í byrjunarlið íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í yfirstandandi undankeppni.

Markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi var ekki í leikmannahópi Íslands í fyrstu leikjum riðlakeppninnar. Hann stimplaði sig svo inn í 2-1 útisigrinum gegn Slóveníu. Þá kom Eiður Smári inn á sem varamaður á 76. mínútu og lagði upp sigurmarkið fyrir Gylfa Þór Sigurðsson tveimur mínútum síðar.

Eiður kom einnig inn á sem varamaður í 2-4 tapinu gegn Slóvenum í júní. Eiður kom inn á snemma í síðari hálfleik þegar Aron Einar Gunnarsson fór úr axlarlið. Staðan var 2-2 þegar Eiður kom inn á en leiknum lauk með 4-2 sigri Albana.

Loks kom Eiður Smári inn á í hálfleik í Bern í Sviss á föstudaginn. Helgi Valur Daníelsson fór af velli fyrir Eið Smára en miðjumaðurinn hafði átt erfitt uppdráttar í fyrri hálfleiknum. Heimamenn leiddu 3-1 í hálfleik en leiknum lauk með 4-4 jafntefli.

Þegar Lars Lagerbäck, þjálfari landsliðsins, skipti Eiði inn á fyrir Helga Val var Gylfi Þór Sigurðsson færður á miðjuna við hlið Arons Einars. Úr varð sóknarsinnuð þriggja manna miðja. Fróðlegt verður að sjá hvort Lars ákveði að tefla fram tveimur djúpum miðjumönnum eða blása til sóknar með Eið Smára innanborðs. Frekari breytingar á byrjunarliðinu eru ólíklegar en þó er mögulegt að Ólafur Ingi Skúlason leysi Birki Má Sævarsson af hólmi í stöðu hægri bakvarðar. Það er þó ólíklegra en hitt.

Leikur Íslands og Albaníu hefst klukkan 19 og verður í beinni textalýsingu hér á vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×