Fótbolti

Gylfi: Albanir spila mjög harkalega

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Það væri fínt ef maður gæti skorað aftur sigurmarkið gegn Albönum,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Hörð Magnússon á Stöð 2 í gær.

Ísland tekur á móti Albaníu í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld. Ísland er með tíu stig í riðlinum en Albanir eru með sama stigafjölda en íslenska landsliðið á enn raunhæfa möguleika á því að komast á lokamótið í Brasilíu á næsta ári.

„Þeir spila mjög harkalega og eru mjög teknískir með leikmenn innanborðs sem eru mjög góðir fram á við.“

„Það sást alveg í fyrri leiknum að það er mjög erfitt að komast í gegnum þá og við þurfum að eiga algjöran toppleik.“

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sigurmarkið í gegn Albaníu ytra beint úr aukaspyrnu tíu mínútum fyrir leikslok.

„Við verðum að vera niðri á jörðinni enda gerðum við bara jafntefli út í Sviss. Núna er annar leikur framundan sem er mikilvægur.“

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu við Gylfa hér að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×