Fótbolti

Vonandi fáum við þennan handboltastimpil á okkur

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Við erum fullir tilhlökkunar að takast á við þetta verkefni,“ segir Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Vísi.

Íslenska landsliðið undirbýr sig núna fyrir leikinn gegn Albaníu í undankeppni HM í Brasilíu sem fram fer árið 2014.

Ísland er í fjórða sæti riðilsins með 10 stig, fimm stigum á eftir Svisslendingum sem eru í efsta sætinu. Ísland gerði frækið jafntefli við toppliðið 4-4 á föstudagskvöld.

„Það væri gaman ef við náum að fylla völlinn og ná í þessi þrjú stig sem við viljum. Við sýndum mikinn karakter gegn Sviss og komum til baka. Það mun gefa okkur ákveðin kraft í leikinn á morgun.“

Ísland mætti Albaníu fyrr í riðlinum ytra og vann liðið magnaðan 2-1 sigur.

„Það var frábær sigur sem maður gleymir seint. Vonandi náum við fram sömu úrslitum.“

Ísland fékk á sig fjögur mörk gegn Sviss á föstudagskvöldið.

„Við þurfum að skoða hvernig varnarleikur liðsins er að virka í heild sinni. Það voru ekkert bara varnarmennirnir sem klikkuðu gegn Sviss, allt liðið var að verjast illa og það þurfum við að fara í gegnum. Menn voru að tapa mikið af boltum í leiknum og við þurfum að endurskoða þessa hluti.“

„Við finnum fyrir gífurlegum stuðningi og það eru spennandi tímar framundan hjá liðinu, sérstaklega ef vel gengur á morgun. Vonandi standa Íslendingar með okkur og við fáum þennan handboltastimpil á okkur.“

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu hér að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×