Innlent

Skora á ráðherra að beita sér af hörku

Haraldur Guðmundsson skrifar
Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála. Mynd/ Ragnar.
Markaðsstofa Norðurlands hefur sent frá sér ályktun þar sem skorað er á Ragnheiði Elínu Árnadóttur, ráðherra ferðamála, að beita sér gegn ólöglegri atvinnustarfsemi innan ferðaþjónustu.

Þar segir að mikil þörf sé á markvissum aðgerðum yfirvalda ef sporna á við ólöglegri starfsemi í ferðaþjónustu, einkum í tengslum við ferðaskipuleggjendur, bílaleigur og leyfislausa gistingu.

„Ólögleg atvinnustarfsemin innan greinarinnar skekkir mjög samkeppnisaðstöðu fyrirtækjanna og svertir orðspor ferðaþjónustunnar í heild sinni.

Markaðsstofa Norðurlands hvetur til þess að ráðherra kalli þegar til samstarfs þá aðila sem koma að leyfisveitingum og eftirliti með ferðaþjónustufyrirtækjum svo sem skattayfirvöld, sýslumenn og Ferðamálastofu til þess að unnt sé að samræma aðgerðir og hrinda þeim í framkvæmd.  Einnig vill Markaðsstofa Norðurlands beina þeim tilmælum til ráðherra að leyfismál innan ferðaþjónustunnar verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að gera ferlið allt einfaldara, skýrara og skilvirkara.

Oft var þörf en nú er nauðsyn, ferðaþjónusta er í örum vexti og fjöldi fyrirtækja innan greinarinnar vex samhliða.  Smæð þeirra og fjöldi gerir að verkum að of mörg þeirra uppfylla ekki þau skilyrði sem almennt eru gerð til fyrirtækja og því er þörfin fyrir skilvirkt aðhald og eftirlit einkar mikil.

Tekjur ríkisins af ferðaþjónustu ættu að aukast í samræmi við umfang og vöxt ferðaþjónustu en það mun ekki gerast nema að þau fyrirtæki sem starfa innan ferðaþjónustu séu löglega starfandi í samræmi við lög og reglur,“ segir í ályktuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×