Innlent

Jón Steinar segir gríðarlegt álag á Hæstarétti

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Jón Steinar Gunnlaugsson er fyrrverandi Hæstaréttardómari.
Jón Steinar Gunnlaugsson er fyrrverandi Hæstaréttardómari. mynd/365
Fjöldi mála er alltof mikill hjá Hæstarétti. Þetta kom fram hjá Jóni Steinari Gunnlaugssyni, fyrrverandi Hæstaréttardómara, í morgunþættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun.

Jón telur að dómarar hafi ekki tækifæri til þess að kynna sér hvert mál og að það vanti mikið á að Hæstiréttur sé í lagi. Hann segir að reynt hafi verið að leysa vandamálið með því að fjölga dómurum við Hæstarétt.

Dómarar í Hæstarétti eru nú tólf talsins. Jón Steinar segir að þegar dómurum sé fjölgað, fjölgi um leið þeim málum sem þrír dómarar dæma og nú séu um 70 til 80% allra mála leyst af hendi þriggja dómara.

Í máli Jón Steinars kom fram að ætla mætti að fordæmisgildi þeirra dóma sem dæmdir eru af þremur dómurum verði lítið. Hann veltir þeirri spurningu upp hvort að hinir níu dómararnir séu bundnir við slíkan dóm og gefur lítið út á fordæmisgildi slíkra dóma.

Jón Steinar segir að Hæstiréttur sé fjölskipaður dómstóll hæfra lögfræðinga, sem eiga að fjalla um þýðingarmestu málin. Hann telur að allir dómarar réttarins ættu alltaf að fjalla um öll mál sem koma fyrir þangað.

Að sögn Jóns Steinars er gríðarlegt álag á Hæstarétti og ýmislegt getur farið úrskeiðis. Dómarar hafa alls ekki tækifæri til þess að kynna sér hvert einstakt mál á þann hátt sem nauðsynlegt er.

„Rak í rogastans"

„Ég skrifaði  grein í Úlfljót,sem ég kalla Rogastans, því mig rak í rogastans þegar ég sá hvernig þrír dómarar fóru með kröfugerð í einu máli,“ segir Jón Steinar.

Greinin sem Jón Steinar á við birtist í nýjasta tímariti Úlfljóts og fjallar um úrlausn máls Hæstaréttar frá 28. maí síðastliðnum.

Í greininni gagnrýnir Jón Steinar Hæstarétt, fyrir þá ákvörðun að allir ákærðu í málinu sem var sakamál, skyldu þurfa að víkja úr dómsal á meðan meðákærðu gáfu skýrslu. Með þessari ákvörðun hafi Hæstiréttur gengið lengra en kröfur ákæruvaldsins stóðu til. Auk þess sem réttindi sakborninga til málsvarna hafi vikið „í þágu sannleiksleitar í sakamálum.“

Jóni Steinari taldist til að árið 2010 þegar hann var enn dómari við Hæstarétt hafi hann verið með yfir 330 mál á sinni könnu. Hann bendir í leiðinni á að starfsdagar dómsins séu aðeins um 200 á ári.

Jón Steinar telur að dómarar séu ekki að gefa sig alla í málin eins og er, það hljóti að liggja í augum uppi að að það sé ekki í mannlegu valdi að fara yfir um 300 mál á hverju ári.

Jón Steinar segir að með stofnun millidómsstigs hér á landi myndu færri mál fara til Hæstaréttar. Hann segir að þannig eignist Ísland raunverulegan Hæstarétt þar sem menn dæma um 60 til 80 mál á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×