Íslenski boltinn

Ákvörðun um Hannes tekin á morgun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. Mynd/Vilhelm
Knattspyrnusamband Íslands mun tilkynna á morgun hvernig leikbanni Hannesar Þórs Halldórssonar, markvarðar KR, verði háttað.

Hannes Þór var rekinn af velli í 3-1 sigurleik gegn ÍBV á dögunum og var í leikbanni í viðureign Breiðabliks og KR á sunnudag. Þann leik þurfti að flauta af snemma leiks vegna höfuðmeiðsla Elfars Árna Aðalsteinssonar.

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ kom saman í dag til þess að fjalla um málið. Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, staðfestir í samtali við Fótbolta.net að niðurstöðu í máli Hannesar sé þó ekki að vænta fyrr en á morgun. Hún verði þá tilkynnt sérstaklega.

Þrír möguleikar virðast í stöðunni.

1. Metið verði að Hannes Þór hafi tekið út leikbann á sunnudaginn jafnvel þótt aðeins hafi fjórar mínútur verið spilaðar og leik frestað. Fyrir því ku vera fordæmi hjá Alþjóðaknattspyrnusambandinu.

2. Hannes Þór tekur út leikbannið þegar Breiðablik og KR mætast að nýju.

3. Hannes Þór tekur út leikbannið í næsta leik KR í deildinni, á sunnudaginn gegn FH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×