Innlent

Glímir enn við afleiðingar eineltis

Hrund Þórsdóttir skrifar
Ung kona sem varð fyrir einelti í æsku segir það hafa djúpstæð áhrif á þolendur. Nú þegar nýtt skólaár er framundan, hvetur hún foreldra og forráðamenn til að setjast niður með börnum sínum, ræða málin og kenna þeim að standa með sjálfum sér og öðrum.

Það kom vinum og ættingjum Huldu Proppé á óvart, þegar hún opnaði sig um einelti sem hún varð fyrir sem barn. Hún segist alls ekki hafa upplifað grófustu gerð eineltis en að neikvæðar aðstæður og hegðun annarra barna hafi orðið til þess að henni leið ekki vel.

„Fólki var til dæmis skipt í lið úti á skólalóð í einhverjum hanaslag og það var bara sagt berum orðum, þeir sem standa með mér fara fyrir aftan mig og þeir sem standa með Huldu fara fyrir aftan hana og það komu kannski bara tveir fyrir aftan mig. Ég lenti líka í að vera ekki boðið í afmæli. Ég var kannski sú eina sem var ekki boðið og vissi ekkert af hverju,“ segir Hulda.

Það að vera ekki samþykkt í hópnum hafði slæm áhrif á sjálfsmynd Huldu og hún kveðst ekki hafa fundið sig fyrr en á unglingsárunum, þegar hún eignaðist góða vinkonu sem tók henni eins og hún var.

Hulda vann úr sinni reynslu og hélt að þessum kafla lífs hennar hefði verið lokað, en síðustu helgi rakst hún á skólasystur sína úr grunnskóla.

„Bara það að ég mætti henni á förnum vegi olli því að allt í einu varð ég, sem er 34 ára mamma og mjög sjálfsörugg, varð bara allt í einu aftur 12 ára með öllum sársaukanum sem fylgdi þá,“ segir hún.

Huldu fannst erfitt að sjá hversu djúpstæð áhrif þessi reynsla hafði og sem þriggja barna móðir sem er að ljúka kennaranámi, sér hún hversu mikilvægt er að fræða börn.

„Mín heitasta ósk sem foreldri er að ég geti alið börnin mín upp og fengið að heyra, vá það var svo frábært, sonur þinn stóð með mér þegar allir hinir voru einhvers staðar annars staðar.“

Hún hvetur foreldra og aðra forráðamenn til að setjast niður með börnum sínum og kenna þeim að sýna styrk.

„Og að það gefi okkur helling að standa með þeim sem virðast vera út undan því það færi okkur bara einhverja gleði í hjartað,“ segir hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×