Innlent

SDG ætlar að beita sér til að tryggja flugvöll í Vatnsmýri

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segist ætla að beita sér fyrir því að tryggja framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri. Þegar eru hafnar viðræður milli innanríkisráðuneytisins og borgarinnar vegna málsins. Rúmlega 34.000 hafa nú skrifað nafn sitt á undirskriftarlista þar sem lagst er gegn þeim áformum að flugvallarstarfsemi víki úr Vatnsmýrinni.

Á vefsíðunni lending.is sem er rekið af félaginu Hjartað í Vatnsmýri hafa rúmlega 34 þúsund manns skrifað undir áskorun til Reykjavíkurborgar og Alþingis um að halda Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni. Þetta er athyglisvert fyrir þær sakir að þessum fjölda undirskrifta hefur verið náð á aðeins fimm dögum því síðan opnaði á föstudag.

Til samanburðar söfnuðust um 38 þúsund undirskriftir vegna Icesave III í febrúar árið 2011. Hér er þó ekki verið að safna undirskriftum gegn lagafrumvarpi eins og þá.

Eins og sést á þessu myndskeiði (sjá myndskeið með frétt) sem tekið var upp á tíu mínútna kafla á sjötta tímanum í dag fjölgar undirskriftum stöðugt frá mínútu til mínutu.

Í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir að norður- og suður flugbrautir flugvallarins í Vatnsmýri víki fyrir byggð eftir árið 2016. Þetta hefur verið á döfinni í einhverri mynd allt frá árinu 2001 eftir íbúakosningu sem þá fór fram um framtíð flugvallarins. Niðurstaða þeirrar kosningar var ekki bindandi fyrir borgarstjórn, aðeins ráðgefandi.

Viðræður hafnar milli ríkis og borgar

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa þó átt sér stað óformlegar viðræður milli innanríkisráðuneytisins og borgarráðs um að borgin fresti þessum áformum lengra inn í framtíðina eða tryggi veru flugvallarins áfram í Vatnsmýri. Aðalskipulag var samþykkt í borgarstjórn fyrr á þessu ári og er um þessar mundir í auglýsingu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, gaf ekki kost á viðtali í dag vegna málsins. Viðræður ríkis og borgar eru snúnar. Skipulagsvaldið er hjá borginni, sjálfstæði sveitarfélaga er tryggt í stjórnarskránni og ríkið getur ekki gefið borginni nein fyrirmæli í þessum efnum. Bæði ríki og borg eiga landið undir flugvellinum svo framtíð flugvallarins er að einhverju marki háð sátt þessara aðila, en fyrr á þessu ári keypti Reykjavíkurborg 112 þúsund fermetra lands í Vatnsmýri af ríkissjóði.

Skipulagsvaldið er hjá borginni, en hvað getur forsætisráðherra gert og öllu heldur mikilvægari spurning, hvað vill hann gera? „Það sem þarf til að tryggja að flugvöllurinn verði áfram á sínum stað. Þetta er það mikilvægt öryggisatriði í fyrsta lagi en líka spurning um að viðhalda nauðsynlegri tengingu á öllum sviðum milli landsbyggðarinnar og höfuðborgar,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

Vill sjá flugvöllinn í óbreyttri mynd

Sigmundur Davíð segir að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hafi leyft sér að fylgjast með viðræðum við borgaryfirvöld. „Ég treysti henni mjög vel til þess að fylgja því eftir. Ég myndi að sjálfsögðu helst vilja sjá flugvöllinn í þeirri mynd sem hann er. Þ.e.a.s þriggja flugbrauta völl. Það er mjög óheppileg á allan hátt þessi leið að reyna að þrengja stöðugt meira að flugvellinum og flytja hann nánast í pörtum úr Vatnsmýrinni, en fyrst og fremst gera flugvellinum ókleift að starfa þarna. Það er stefna sem að ríkið þarf að koma í veg fyrir að nái fram að ganga áfram,“ segir Sigmundur Davíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×