Fótbolti

Yfir milljón beiðnir um miða á HM 2014

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fjölmargar beiðnir um miða bárust frá Bandaríkjunum.
Fjölmargar beiðnir um miða bárust frá Bandaríkjunum. Nordichpotos/AFP
Alþjóðaknattspyrnusambandið hóf í dag sölu á miðum í lokakeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í Brasilíu árið 2014. Um fyrsta fasa í sölunni er að ræða sem stendur til 10. október.

Samkvæmt forsvarsmönnum FIFA óskuðu 163 þúsund manns eftir miðum á hina og þessa leikina í lokakeppninni. Opnunarleikurinn í Sao Paulo (168 þúsund miðabeiðnir) og úrslitaleikurinn á Maracana í Ríó (165 þúsund miðabeiðnir) voru vinsælastir hjá fólki í dag fyrstu sjö klukkustundirnar sem miðasalan var opin.

Flestar beiðnir um miða komu frá Brasilíu, Argentínu, Bandaríkjunum, Chile og Englandi. Dregið verður úr beiðnum og þá fyrst kemur í ljós hverjir hreppa miða og á hvaða leiki.

Miðaverð á leiki í riðlakeppninni eru á bilinu 11 þúsund til 23 þúsund krónur. Dýrustu miðarnir á úrslitaleikinn kosta rúmlega hundrað þúsund krónur en þeir ódýrustu um fimmtíu þúsund. Íbúar í Brasilíu geta þó fengið ódýrari miða á keppnina sem fram fer í heimalandi þeirra.

Hægt er að óska eftir miðum á heimasíðu FIFA, smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×