Íslenski boltinn

Selfoss skoraði sex mörk á móti Völsungi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Selfoss vann 6-1 stórsigur á botnliði Völsungs í 1. deild karla í fótbolta í kvöld og á sama tíma sóttu Djúpmenn þrjú stig á Ólafsfjörð eftir 3-0 sigur á KF. BÍ/Bolungarvík ætlar ekki að gefa neitt eftir í æsispennandi baráttu um sæti í Pepsi-deildinni.

Svavar Berg Jóhannsson og varamaðurinn Ingi Rafn Ingibergsson skoruðu báðir tvö mörk fyrir Selfoss í seinni hálfleik  í kvöld en Ingólfur Þórarinsson (4. mínúta) og Andrew James Pew  (7. mínútu) komu liðinu í 2-0 í upphafi leiks. Hrannar Björn Steingrímsson minnkaði muninn í 4-1 á 85. mínútu.

Selfoss er í 9. sæti með 21 stig en Völsungar eru í neðsta sæti með 2 stig. Þeir eru fimmtán stigum frá öruggu sæti og það eru einmitt fimmtán stig eftir í pottinum. Húsvíkingar falla því ef þeir tapa einu stigi í viðbót eða að Þróttarar ná í eitt stig til viðbótar.

Alejandro Berenguer Munoz, Gunnar Már Elíasson og Ben J. Everson skoruðu mörkin fyrir BÍ/Bolungarvík í 3-0 sigri á KF á Ólafjarðarvelli.

BÍ/Bolungarvík fór upp í 4. sætið með þessum sigri en liðið er með 30 stig eins og Víkingur (5. sæti). Djúpmenn eru þremur stigum á eftir toppliði Grindavíkur og einu stigi á eftir Haukum og Fjölni sem eru í næstu sætum fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×