Innlent

Funduðu vegna hótana ESB um viðskiptaaðgerðir

Haraldur Guðmundsson skrifar
Á þriðjudag var staðfest að framkvæmdastjórn ESB sé að undirbúa viðskiptaaðgerðir gegn Íslandi vegna makrílveiða.
Á þriðjudag var staðfest að framkvæmdastjórn ESB sé að undirbúa viðskiptaaðgerðir gegn Íslandi vegna makrílveiða.
Íslensk stjórnvöld hafa kallað fulltrúa Evrópusambandsins hér á landi á sinn fund vegna hótana sambandsins um viðskiptaaðgerðir gegn Íslandi vegna makrílveiða. Þetta segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Ástæða fundarins var fréttatilkynning framkvæmdastjórnar ESB á þriðjudag vegna aðgerða gegn Færeyjum vegna síldveiða þar sem staðfest er að framkvæmdastjórnin sé að undirbúa slíkar aðgerðir gegn Íslandi vegna makrílveiða.

„Á fundinum gerðu fulltrúar utanríkisráðuneytisins fulltrúum ESB grein fyrir þeirri afstöðu íslenskra stjórnvalda að slíkar aðgerðir myndu einungis spilla fyrir samningsmöguleikum í deilunni. Ísland hafi ítrekað sýnt samningsvilja, nú síðast með boði um strandríkjafund í Reykjavík í byrjun september, sem allir deiluaðilar hafi þekkst. Vaxandi hótanir um viðskiptaaðgerðir spilli verulega fyrir því andrúmslofti sem þær viðræður fari fram í. Jafnframt var vísað til yfirlýsingar ríkisstjórnar fyrir helgi og ítrekað að þó Ísland styddi ekki kröfur Færeyinga í síldarmálinu þá mótmæltu stjórnvöld harðlega aðgerðum ESB þar sem Ísland teldi að aðgerðir af þessu tagi væru ekki til þess fallnar að stuðla að lausn, heldur þvert á móti,“ segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.

Tilkynningin tekur að lokum fram að á fundinum hafi verið áréttað um mikilvægi þess að vandað væri til upplýsingamiðlunar í þessari viðkvæmu deil og að „það hjálpaði alls ekki að spyrða makrílmálið og síldarmálið saman eins og gert hafi verið í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×