Innlent

Ólafur Darri: "Maður getur auðvitað aldrei ætlast til að fólk sé svona örlátt"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Sunna Valdís, sjö ára og Ólafur Darri eru miklir vinir og hleypur hann fyrir Sunnu í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun.
Sunna Valdís, sjö ára og Ólafur Darri eru miklir vinir og hleypur hann fyrir Sunnu í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun.
Reykjavíkurmaraþonið fer fram í þrítugasta sinn á morgun og hátt í tólf þúsund manns hafa skráð sig. Áheitasöfnun hlaupsins, á hlaupastyrkur.is, gengur vonum framar og hafa safnast yfir 50 milljónir til góðgerðarmála, sem er met. Á toppnum trónir listamaðurinn Ólafur Darri Ólafsson, sem nálgast eina milljón króna. Hann ætlar tíu kílómetra og heitir á AHC samtökin fyrir vinkonu sína Sunnu Valdísi. Hún er eini Íslendingurinn með AHC sjúkdóminn sem veldur meðal annars lömunarköstum og er Sunna sjö ára en með þroska á við þriggja ára barn.

Sunna tók ástfóstri við Ólaf og bjó til glæsileg klippimyndaplaköt af honum. „Þannig að ég hringdi svo í Darra og spurði hvort hann væri tilbúinn að koma og hitta litlu dóttur mína sem væri eltihrellir. Hún vildi endilega fá hann í kaffi, en hún væri bara svona krúttlegur eltihrellir,“ segir Sigurður Hólmar Jóhannesson, faðir Sunnu Valdísar, hlæjandi.

Mikil vinátta tókst og ákvað Ólafur að safna peningum til rannsókna á þessum sjaldgæfa sjúkdómi. Hann hlakkar mikið til hlaupsins og kveðst þakklátur fyrir góð viðbrögð við söfnuninni. „Maður getur auðvitað aldrei ætlast til að fólk sé svona örlátt og gjafmilt en á sama tíma hafði ég alveg trú á því að við gætum náð þessu,“ segir Ólafur.

Hann setti markið á að safna milljón en setur sér ekki tímatakmörk í hlaupinu. „Ég hef sex tíma til að komast í mark, ég er að pæla í að hafa þá fimm,“ segir hann og hlær. „Nei annars, ég ætla bara að njóta þess að gera þetta, fyrst og fremst.“

Sunna getur ekki farið með í bæinn á morgun vegna álags og margmennis en Sigurður segir stemmninguna í kringum hlaupið einstaka. „Fyrir okkur er þetta skemmtilegasti dagur ársins. Engin spurning,“ segir hann og Ólafur bætir við: „Kannski er þetta dagurinn sem við virkilega gefum af okkur, en við megum ekki gleyma að gefa af okkur hina 364 daga ársins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×