Fótbolti

Alfreð með tvö mörk og Kolbeinn eitt í markaveislu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Nordicphotos/Getty
Alfreð Finnbogason skoraði tvö mörk og Kolbeinn Sigþórsson eitt í 3-3 jafntefli Heerenveen og Ajax í hollensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Hollandsmeistarar Ajax komust í 2-0 á fyrsta stundarfjórðungnum en Kolbeinn Sigþórsson skoraði síðara mark Ajax. Mark Kolbeins kom eftir hornspyrnu en markvörður heimamanna misreiknaði spyrnuna fyrir markið og Kolbeinn skallaði boltann í opið markið.

Þrátt fyrir erfiða stöðu gegn meisturunum gáfust heimamenn ekki upp. Alfreð Finnbogason hefur verið sjóðheitur á tímabilinu og hélt uppteknum hætti með tveimur mörkum á tíu mínútna kafla. Mörkin voru keimlík. Heerenveen vann boltann á miðjunni, Alfreð dansaði við varnarlínu Ajax, elti stungusendingar inn fyrir og kláraði færin vel.

Heimamenn bættu svo við marki undir lok fyrri hálfleiks og mögnuð endurkoma fullkomnuð gegn sterkasta liði Hollands. Gestirnir frá Amsterdam dóu ekki ráðalausir og jöfnuðu metin um miðjan síðari hálfleikinn. Christian Eriksen kom Ajax þá til bjargar.

Bæði lið hafa nú sjö stig eftir fjórar umferðir. Liðin eru á meðal þeirra efstu en önnur lið eiga leik til góða á Heerenveen og Ajax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×