Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fylkir - ÍBV 0-1| James til bjargar

Sigmar Sigfússon skrifar
Eyjamenn sigruðu Fylkismenn í leik sem var lítið fyrir augað í Árbænum í kvöld. Gestirnir skoruðu eina mark leiksins á 16. mínútu  og héldu forystunni út leikinn.

Fylkismenn sóttu stíft síðustu mínúturnar og voru óheppnir að skora ekki. David James var þeim erfiður og varði vel í marki ÍBV.

Leikurinn fór fjörlega af stað og bæði lið náðu að skapa sér ágætis færi. Eyjamenn voru þó mun sprækari á upphafs mínútunum og fór svo að gestirnir skoruðu fyrsta markið í leiknum.

Þar var að verki Víðir Þorvarðarson á 16. mínútu leiksins. Víðir fékk boltann fyrir framan mark eftir sendingu frá Ian Jeffs. Ian sendi góða sendingu inn á teiginn frá hægri og Víðir skoraði framhjá Bjarna í marki fylkis sem var þó aðeins í boltanum.

Annars var ekki mikið um fallegan fótbolta og gott spil í fyrri hálfleik. Hálfleikurinn einkenndist af mikilli hörku og flautaði Magnús Þórisson dómari leiksins mikið.

Síðari hálfleikur byrjaði eins og þeim fyrri lauk. Gestirnir voru mun sterkari og fengu nokkur ágætis færi sem þeir náðu ekki að nýta.  Á síðasta korteri leiksins settu heimamenn í annan gír og sóttu stanslaust að marki ÍBV.

Þar kom gamla kempan David James að góðum notum fyrir Eyjamenn. David varði oft á tíðum glæsilega og bjargaði þessum sigri fyrir sitt lið.

Nær komust heimamenn í Fylki ekki og Eyjamenn sigruðu leikinn 0-1.





David: Virkilega gaman að halda hreinu í mínum þúsundasta leikDavid James var að spila sinn þúsundasta leik á ferlinum og sigurinn því en sætari fyrir vikið.

„Ég er í skýjunum eftir þennan leik. Við þurftum að hafa fyrir honum þannig að ég er mjög ánægður með sigur í þessum leik,“ sagði David James eftir leikinn.

„Við breyttum örlítið leikskipulaginu okkar fyrir leikinn og það virkaði vel sérstaklega í fyrri hálfleik. Fylkir hafa verið á góðu skriði undanfarið svo við vissum að þetta yrði ekki auðvelt. Við vörðumst nógu vel og héldum hreinu marki,“

Hvernig var að spila sinn þúsundasta leik á ferlinum og það á Íslandi?

„Það var ekki í mínum áformum þegar ég byrjaði að spila. Mér líður vel að spila Íslandi og ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en fyrir þremur dögum eftir að hafa talið mikið og reiknað,“ sagði David léttur.

„Virkilega gaman að halda hreinu í mínum þúsundasta leik og sigra hann 0-1. Ég átti nokkrar góðar vörslur þannig að þetta er gleði dagur,“

Þú fékkst gult spjald fyrir að tefja, fannst þér það harður dómur?

„Ég er enginn boltastrákur, þannig að já þetta var ansi harður dómur,“

Þú virðist meiða  þig í öxlinni eftir eina markvörslu í leiknum, hvernig er öxlin?

„Já ég fékk smá verk í öxlina en hann er farinn núna. Ég svaf á einfaldri dýnu á hóteli hérna í bæ í nótt. Það var ekki að gera góða hluti fyrir öxlina mína.“ Sagði David James kátur í lokin.

Ásmundur: Við áttum að fá víti í seinni hálfleik„Við vorum heilt yfir ekki nógu góðir í dag. Komum of rólegir inn í leikinn við ætluðum að halda uppi og stjórna tempóinu en það gekk ekki eftir því miður,“ Sagði Ásmundur Arnarsson þjálfari Fylkis eftir leikinn.

„Þeir náðu marki snemma og náðu í kjölfarið að drepa niður stemninguna og tempóið. Það vantaði herslumuninn að við næðum að brjóta það upp,“

„Það vantaði meiri greddu til þess að klára þetta. En mér fannst vera rangstöðu lykt af markinu þeirra og svo áttum við að fá víti í seinni hálfleik þegar þeir fóru í andlitið á Viðari,“

„Ég upplifi það þannig að mörg smáatriði í dómgæslunni hafi hallað á okkur en aðal atriðið er að við áttum að gera betur.“ Sagði Ásmundur svekktur að lokum.

Hermann: þungu fargi af okkur létt núna„Ég ætla ekki að ljúga neinu, það er þungu fargi af okkur létt núna. Við vorum miklu sterkara lið sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Skoruðum frábært mark og fengum önnur færi kannski svona tvö-þrjú. Fylkir er hörkulið og í góðu formi þannig að við þurftum að taka á honum stóra okkar“ sagði Hermann Hreiðarsson þjálfari ÍBV eftir leikinn.

„Það er veik von á Evrópusæti en það er von. Það eru fimm leikir eftir og við höldum áfram að berjast,“

„Það eru ansi fáir leikir sem ég hef ekki verið ánægður með. Það hefur vantað að klára færin. David var að spila mjög vel hérna í kvöld og er maður leiksins að mínu mati. Ekki leiðinlegt að spila þannig í sínum þúsundasta leik.“ Sagði Hermann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×