Íslenski boltinn

Ólafsvíkur-Víkingar unnu fyrsta leikinn í Evrópukeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafsvíkur-Víkingar byrja vel í Evrópukeppninni í Futsal.
Ólafsvíkur-Víkingar byrja vel í Evrópukeppninni í Futsal. Mynd/Anton
Víkingur frá Ólafsvík vann 8-7 sigur á Anzhi Tallinn frá Eistlandi í kvöld í fyrsta leik liðsins  í undankeppni Evrópukeppni félagsliða í Futsal en riðill Ólafsvíkur-Víkinga er einmitt spilaður í Ólafsvík.

Antonio Jose Mossi sýndi flotta takta í kvöld og skoraði þrennu fyrir Víking en Eyþór Helgi Birgisson var síðan með tvö mörk. Brynjar Kristmundsson, Juan Manuel Torres og Eldar Masic voru líka á skotskónum í þessum flotta sigri.

Þetta er í fyrsta skiptið sem Víkingur Ólafsvík leikur í þessari keppni en sem handhafar Íslandsmeistaratitilsins í Futsal tryggðu þeir sér rétt til að leika fyrir Íslands hönd í þessari keppni.

Þetta byrjaði reyndar ekki vel fyrir Víkinga því Eistarnir voru komnir í 1-0 eftir aðeins tuttugu sekúndna leik og staðan var síðan orðin 3-1 fyrir Anzhi Tallinn eftir tæpar sjö mínútur.

Juan Manuel Torres jafnaði metin í 1-1 á 4. mínútu með fyrsta marki Víkinga í Evrópukeppninni og tvö mörk frá Eyþóri Helga Birgissyni og eitt frá Antonio Jose Espinosa Mossi sáu til þess að staðan var 4-4 í hálfleik.

Eistarnir komust í 4-5 í byrjun seinni hálfleiks en Víkingar skoruðu næstu þrjú mörk (Mossi 2 og Brynjar Kristmundsson) og það var síðan Eldar Masic sem kom liðinu í 8-6 á lokamínútunni áður en Anhi minnkaði muninn í lokin.

Einar Hjörleifsson, markvörður Víkings, varði sextán skot í þessum leik og var því betri en enginn í liði Ólafsvíkinga.

Þriðja liðið í riðlinum er Athina '90 frá Grikklandi. Sigurvegari riðilsins kemst í aðalkeppnina og mun þá leika í Rúmeníu í riðli með liði frá Aserbaídsjan, Belgíu ásamt heimamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×