Fótbolti

Aron: Ákvörðun mín gladdi pabba

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Ég var bara íslenskur strákur að spila fótbolta í Danmörku," segir Aron Jóhannsson í viðtali við New York Times um augnablikið þegar Jürgen Klinsmann sló á þráðinn til hans.

Sem kunnugt er kaus Aron á dögunum að spila fyrir hönd Bandaríkjanna frekar en Íslands. Þar sem Aron fæddist vestanhafs er hann bandarískur ríkisborgari og átti þess því kost.

„Að fá símtal frá goðsögn og þjálfara bandaríska landsliðsins var sérstakt. Hann sýndi mér áhuga í meira en ár. Hann hringdi og hringdi og lýsti yfir áhuga á að ég spilaði fyrir Bandaríkin. Því meira sem ég hugsaði málið áttaði ég mig á tækifærunum," segir Aron í viðtali við Brian Sciaretta.

Aron þurfti að hugsa sig um eftir símtalið frá Klinsmann. Hann var valinn í A-landslið Íslands en dró sig úr hópnum vegna meiðsla. Af sömu ástæðum gat hann ekki farið í æfingaferð með bandaríska landsliðinu um áramótin.

Um svipað leyti var Aron keyptur til AZ Alkmaar í Hollandi þar sem hann varð fyrir bandarískum áhrifum. Jozy Altidore, fyrsti kostur í framlínu landsliðs Bandaríkjanna sem stendur, spilaði með AZ auk þess sem yfirmaður knattspyrnumála, Ernie Stewart, er fyrrverandi bandarískur landsliðsmaður.

„Við spjölluðum saman um bandaríska landsliðið," segir Altidore við New York Times og bætir við að hann hafi hvatt Aron til að spila fyrir hönd Bandaríkjanna.

Aron og Jozy Altidore fagna marki í leik með AZ Alkmaar í vor.Nordicphotos/Getty
„Það fór alltaf vel á með okkur. Hann er klár leikmaður og ég er í skýjunum að hann hafi valið Bandaríkin. Hann á efir að reynast okkur mikill styrkur í framtíðinni," segir Altidore sem nú leikur með Sunderland.

Ákvörðun Arons fór ekki framhjá Íslendingum. Í yfirlýsingu frá KSÍ var gefið í skyn að ákvörðun Arons væri að líkindum fyrst og fremst fjárhagslegs eðlis. Í yfirlýsingunni voru lög FIFA sögð gölluð og vonbrigðum lýst yfir ákvörðun Íslendingsins uppalda.

„Hann hefur sína skoðun og ég mína," segir Aron um Geir Þorsteinsson, formann KSÍ. „Þetta er hans skoðun og ég virði hana. Margir sem ég hef rætt við hefðu viljað að Ísland hefði orðið fyrir valinu. Þeir skilja hins vegar að ákvörðunin var mín en ekki þeirra. Þeir virða það," segir Fjölnismaðurinn uppaldi.

Aron segist hafa íhugað það vel og lengi hvort landsliðið hann ætti að velja. Á endanum hafi hann talið Bandaríkin betri kost fyrir sig og fjölskyldu sína.

„Pabbi var sérstaklega spenntur. Þegar ég var yngri vildi hann að ég ætti þess kost að spila á hæsta mögulega stigi. Ákvörðun mín gladdi hann."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×